Innlent

Dæmdur í endurkomubann og hélt atvinnleysisbótum allan tímann

Rucinskis situr í gæsluvarðhaldi. Var alltaf á atvinnuleysisbótum.
Rucinskis situr í gæsluvarðhaldi. Var alltaf á atvinnuleysisbótum.

Litháinn Algis Rucinskis, sem rauf fimm ára endurkomubann fyrir stuttu, var dæmdur í 70 daga fangelsi fyrir brotið í Héraðsdómi Reykjavíkur í hádeginu.

Algis er búinn að vera á atvinnuleysisbótum allan tímann sem hann var í endurkomubanninu og svo virðist sem Vinnumálastofnun hafi aldrei tekið hann út af listanum þrátt fyrir að hann hafi verið erlendis og ekki mátt snúa aftur til landsins næstu fimm árin.

Algis var dæmdur fyrir hrottalega árás á lögreglumann á síðasta ári og situr nú í gæsluvarðhaldi. Hann var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í desember á síðasta ári en var sleppt á reynslulausn þegar hann átti fjörutíu daga óafplánaða.

Honum var í kjölfarið vísað af landi brott og dæmdur í fimm ára endurkomubann sem hann rauf. Árás Algis á lögreglumanninn þótti fólskuleg, ógnvekjandi og brotavilji hans einbeittur.

Hann fékk þrjátíu daga fangelsi fyrir að rjúfa endurkomubannið. Þá bættust við fjörtíu dagar sem hann átti eftir að afplána vegna árásarinnar á lögreglumanninn.

Algis var á atvinnuleysisskrá þegar hann var dæmdur fyrir brot sín. Hann virðist ekki hafa verið tekinn af skrá þrátt fyrir að hafa verið vísað úr landi og bannað að koma hingað í fimm ár.

Sjálfur á Algis átján ára kærustu hér á landi og nýfætt barn. Hann rauf endurkomubannið til þess að hitta þau. Hann framvísaði eigin skilríkjum þegar hann kom til landsin, engu síður var hann ekki stoppaður. Hann hefur tekið áfrýjunarfrest en mun sitja í gæsluvarðhaldi áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×