Lífið

Fyrirliði pókerlandsliðsins sakaður um svik og pretti

Segir þá harða bak við lyklaborðið sem voga sér að efast um landsliðsfyrirliðatign hans. fréttablaðið/Arnþór
Segir þá harða bak við lyklaborðið sem voga sér að efast um landsliðsfyrirliðatign hans. fréttablaðið/Arnþór

„Þeir eru harðir bak við lyklaborðið þessir gæjar. Gaman ef þeir myndu labba upp að stóra frænda sínum og segja að hann sé ekki lengur fyrir-liði. Ég er brjálaður,“ segir Egill „Gillzenegger“ Einarsson einkaþjálfari sem kallar sig „Störe“ um þessar mundir. Og það sem meira er – hann hikar ekki við að titla sig landsliðsfyrirliða Íslands í póker ef svo ber undir. Sem er umdeilt.

Á síðu Pókersambands Íslands (PSÍ) er að finna tilkynningu þar sem segir að yfirlýsingar þekktra einstaklinga um stöðu sína í landsliði Íslands í póker hafi farið fyrir brjóstið á mörgum: „Það skal tekið skýrt fram að eins og staðan er í dag er ekki til neitt sem heitir landsliðsþjálfari eða opinbert landslið Íslands í póker. Það landslið sem hefur verið í umræðunni undanfarið er því einungis til í hugarheimi viðkomandi aðila,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Ekki þarf að fara í grafgötur með hverjum skeytið er ætlað. Störe, sem er nýkominn frá Atlantic City þar sem hann spilaði póker, – og leit á það sem fína landsliðsæfingu – bregst ókvæða við tilkynningunni í samtali við Fréttablaðið.

 „Fyrir hvaða landslið var ég þá að halda ræðu áður en við kepptum nýverið á risastóru pókermóti í Portúgal? Fyrirliðinn tekur starf sitt mjög alvarlega, er að peppa strákana upp og þjálfa. Þetta er einhver rasshaus, einhver bólugrafinn netlúði sem hefur tekið sig til og búið til eitthvað sem heitir Pókersamband Íslands á Wordskjalið sitt. Ég get boðið honum í „Heads-on“ póker og þá sjáum við bara hver er fyrirliðinn. Ég skil vel að þetta fari í pirrurnar á sumum. Flestir pókerspilarar eru 30 kílóum of þungir en ég tek 170 kíló í bekknum, hleyp hundrað metrana á 11,2 og síðan „dedda“ ég 270 kílóum fyrir hádegi. Þetta eru tölurnar. Það er það sem er að frétta og skiljanlega...“ segir hinn yfirlýsingaglaði og reiði meinti landsliðsfyrirliði og hér verður að setja punktinn við ræðu hans því hún er komin yfir öll velsæmismörk.

Á síðu PSÍ segir að eitt helsta markmið sambandsins sé að stuðla að því að póker í heimahúsum og mótapóker verði ótvírætt gerður löglegur á Íslandi og í framhaldinu verði staðið að Íslandsmóti í greininni og meistarinn sendur á alþjóðleg stórmót.

Forseti er Eirný Sveinsdóttir en aðrir í stjórn eru Ólafur Helgi Þorkelsson, Georg Haraldsson, Ellert Magnason og Davíð Hansson. Talsmaður er hins vegar stjörnulögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson sem segist ekki vita til þess að til sé neitt landslið. Til sé hópur manna sem er sterkur í póker – atvinnumenn.

 „Sem er sérstakt því ákæruvaldið hélt því fram að póker grundvallist á heppni. Svo er ekki. Þetta er samspil ýmissa þátta svo sem sálfræði og stærðfræði, að reikna út líkur. Nokkrir Íslendingar eru atvinnumenn og hafa verið að keppa úti í heimi og náð góðum árangri. Egill er ekki þar á meðal. Hann hefur tekið þátt í mótum hér innanlands en ekki með sérstökum árangri – með fullri virðingu,“ segir Sveinn Andri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.