Innlent

Þarf að verðleggja mengun

Segir Íslendinga vera 15 til 20 árum á eftir nágrannalöndunum þegar kemur að mengunarsköttum.
fréttablaðið/vilhelm
Segir Íslendinga vera 15 til 20 árum á eftir nágrannalöndunum þegar kemur að mengunarsköttum. fréttablaðið/vilhelm

„Þetta er hið besta mál. Við erum svona 15 til 20 árum á eftir nágrannaríkjunum í þessum málum,“ segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, um ný orku-, umhverfis- og auðlindagjöld. Gjöldin eiga að skila 16 milljörðum í ríkiskassann á næsta ári.

Árni segir nauðsynlegt að verðleggja orkuna rétt, greitt hafi verið allt of lágt verð fyrir hana. Sérstaklega verði að leggja skatta á orku sem sé mengandi.

„Eitt af mikilvægustu atriðunum við að fást við loftslagsbreytingar er að gefa skýr skilaboð um að losun á kolefni kosti. Þannig leitar markaðurinn eftir leiðum til að draga úr losun. Við þurfum að stjórna þessu með skattlagningu og draga úr þeirri neyslu sem er skaðleg, en umbuna þeirri sem ekki er skaðleg,“ segir Árni.

Forsvarsmenn álfyrirtækjanna kvörtuðu yfir gjöldunum í Fréttablaðinu í gær og töldu þau geta veitt rekstri þeirra þung högg. Árni segist ekki vorkenna þeim, fyrirtækin hafi grætt gríðarlega mikið á lágu gengi krónunnar.

„Hvergi í hinum iðnvædda heimi er losun koltvísýrings leyfð nema gegn gjaldi. Menn eru ekki metnaðarfullir ef íslenskur iðnaður á að keppa við þriðja heiminn, Kína og Indland. Það verður að sýna að það borgi sig að framleiða á Íslandi, þrátt fyrir skatta.“- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×