Innlent

Brýnt að þjónusta við börn skerðist ekki

Petrína Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla.
Petrína Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla.
Barnaheill beina því til ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga að þau standi vörð um réttindi barna og skerði alls ekki þjónustu við þau og fjölskyldur þeirra á sviði menntamála, heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu.

„Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem íslensk stjórnvöld hafa staðfest, skulu öll börn njóta sömu réttinda óháð stöðu þeirra og foreldra þeirra. Öll börn eiga meðfæddan rétt til lífs og þroska, öll börn eiga rétt á endurgjaldslausri grunnmenntun, öll börn eiga rétt á besta mögulegu heilsufari og öll börn eiga rétt á umönnun og vernd. Áframhaldandi niðurskurður í menntakerfi, heilbrigðis- og félagsþjónustu getur haft alvarleg áhrif á stöðu fjölda barna í nútíð og framtíð," segir í ályktun Barnaheilla.

Barnaheill benda á mikilvægi þess að ríki og sveitarfélög læri af þeim þjóðum sem hafa reynslu af því að ganga í gegnum efnahagsþrengingar. „Í skýrslu nefndar á vegum heilbrigðisráðuneytis um sálfélagsleg viðbrögð við efnahagskreppunni er vitnað í reynslu Finna um áhrif kreppu á börn þar í landi. Þar segir m.a. að ekki sé aðeins mannúðlegt að þétta sálfélagslegt net í kringum börn, unglinga og atvinnuleitendur á tímum kreppu og atvinnuleysis, heldur sé það ódýrara en að gera það ekki."

Barnaheill fagna þeirri upplýsingasöfnun sem átt hefur sér stað hjá ríki og sveitarfélögum um áhrif kreppunnar sem og auknu samstarfi milli sviða innan sveitarfélaga og milli sveitarfélaga og ríkisstofnana. „En betur má ef duga skal. Barnaheill hvetja ríkisstjórn og sveitarfélög til að forgangsraða upp á nýtt og setja öll börn þessa lands í fyrsta sæti."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×