Innlent

Fékk ekki færi á andmælum

Dómsmálaráðuneytið á að taka aftur fyrir mál karlmanns frá Venesúela sem Útlendingastofnun vísaði úr landi eftir að hann hafði lokið afplánum dóms fyrir líkamsárás.

Þetta segir umboðsmaður Alþingis.

Maðurinn á íslenska unnustu og búa þau nú saman í Venesúela. Hann kom til Íslands í maí 2006. Í byrjun ágúst sama ár lenti hann í áflogum á skemmtistaðnum í Traffic í Keflavík og skar þar illa með flösku Bandaríkjamann úr varnarliðinu.

Venesúelamaðurinn hlaut átján mánaða fangelsis­dóm en þar af voru fimmtán mánuðir skilorðsbundnir. Á meðan hann afplánaði á Litla-Hrauni barst honum bréf á ensku frá Útlendingastofnun. Þar kom fram að honum væri vísað úr landi og mætti ekki koma aftur næstu sjö árin. Ef hann væri með athugasemdir hefði hann þrjá daga til að skila greinargerð.

Venesúelamaður­inn kærði málsmeðferð­ina til dóms­málaráðuneytis­ins, sem hins vegar staðfesti ákvörðun Útlendinga­stofnunar. Þá vísaði maðurinn málinu til umboðsmanns Alþingis, sem nú hefur kveðið upp úr um að andmælaréttur hafi verið brotinn á manninum með því að hann hafi ekki fengið túlk og allt of stuttan tíma til andsvara.

Ráðuneytið fær síðan ákúrur fyrir að hafa ekki sótt nauðsynleg svör frá Útlendingastofnun. - gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×