Erlent

Sprengjuhætta stafaði af heimilislausum

Óli Tynes skrifar
Lögreglumenn gæta mannfjöldans utan við La Guardia.
Lögreglumenn gæta mannfjöldans utan við La Guardia. Mynd/AP

La Guardia flugvöllur í New York var rýmdur með látum í gær þegar farþegi gerði sig líklegan til að sprengja þar sprengju.

Ungur karlmaður vakti athygli um leið og hann kom inn í flugstöðina á La Guardia. Hann var tötralega klæddur og hegðaði sér undarlega. Hann hafði hinsvegar gildan farseðil með United Airlines til Chicago.

Lögreglan fékk tvær upphringingar jafnvel áður en maðurinn komst að öryggishliðinu. Hann var því stöðvaður en svaraði ekki spurningum sem til hans var beint. Hann hélt fast um skjóðu sem hann var með.

Þá var ákveðið að rýma flugstöðina í snatri.

Eftir nokkuð þóf sýndist maðurinn þrýsta á einhverskonar gikk sem vírar voru festir við sem lágu ofan í skjóðuna.

Lögreglumenn stukku þá samstundis á hann og felldu hann í gólfið. Þegar innihald skjóðunnar var skoðað fundust rafhlöður og vírar sem lögreglan taldi að ætti að líkjast sprengju. Ekkert var þó sprengiefnið.

Við eftirgrenslan kom í ljós að maðurinn var heimilislaus og hefur nokkrum sinnum verið handtekinn undanfarið, vegna sérkennilegrar hegðunar.

Nokkurra klukkustunda töf varð á flugi frá La Guardia vegna þessa atviks.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×