Enski boltinn

Moyes rak Anichebe heim

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Victor Anichebe í leik með Everton gegn Liverpool í síðasta mánuði.
Victor Anichebe í leik með Everton gegn Liverpool í síðasta mánuði. Nordic Photos / Getty Images
David Moyes, knattspyrnustjóri Everton, hefur fengið sig fullsaddann af framherjanum Victor Anichebe eftir því sem fram kemur í enskum fjölmiðlum í dag.

Það er fullyrt að Moyes hafi rekið Anichebe af æfingu í dag en hann var ekki í leikmannahópi Everton sem leikur nú gegn Liverpool í ensku bikarkeppninni - þó svo að allir aðrir framherjar liðsins séu annað hvort meiddir eða megi ekki spila í kvöld.

Fjölmiðlum ber ekki saman um hvað hafi gerst. Sumir hafa haldið því fram að Anichebe hafi móðgað Moyes illa með því að nota þekkts blótsyrði í hans garð en aðrir segja að Moyes hafi einfaldlega fengið sig fullsaddann af viðhorfi framherjans.

Daily Mail heldur því fram að Anichebe hafi verið að vonast eftir því að hann myndi verða lánaður til Hull á lokadegi félagaskiptagluggans á mánudaginn var en ekkert varð úr því.

Anichebe var mjög reiður vegna þessa og mun hafa sagt einum sjúkraþjálfara félagsins að hann væri meiddur og gæti því ekki spilað gegn Liverpool. Þegar Moyes fékk þær fréttir leitaði hann Anichebe uppi og húðskammaði hann.

Moyes hafði vonast til þess að Anichebe myndi taka á sig aukna ábyrgð í kjölfar meiðsla annarra framherja félagsins en að Anichebe hafi einfaldlega ekki staðist álagið sem því fylgdi.

Moyes hafi því einfaldlega fengið nóg og er talið líklegt að Anichebe muni fara frá félaginu nú strax í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×