Innlent

Gylfi: AGS stýrir ekki Íslandi

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon. Mynd/Anton Brink
Efnahags- og viðskiptaráðherra segir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn ekki fara með stjórn efnahagsmála á Íslandi, eins og margir þingmenn og fleiri hafa gefið í skyn. Sjóðurinn sé í samstarfi við Íslendinga að beiðni íslenskra stjórnvalda.

Margir þingmenn í stjórnarandstöðu og nokkrir þingmenn Vinstri grænna hafa fullyrt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fari í raun með stjórn efnahagsmála á Íslandi og ráði því sem hann vill. Sjóðurinn hafi m.a. þvingað stjórnvöld til samninga um Icesave með því að fresta endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands hjá sjóðnum um átta mánuði.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir Alþingi og ríkisstjórn fara með stjórn efnahagsmála landsins.

„Það má ekki gleyma því að við kölluðum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til, eða reyndar síðasta ríkisstjórn, og hann er hér að beiðni Íslendinga. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fer væntanlega snemma á árinu 2011 og hann gæti jafnvel farið fyrr ef við óskum eftir því," segir Gylfi.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verði ekki lengur í landinu en hann er velkominn segir ráðherrann. Stjórnvöld séu í samstarfi við sjóðinn á ákveðnum forsendum.

„Ef við stöndum ekki við okkar hlið á því myndu þeir væntanlega til dæmis hætta að lána okkur. Við göngum út frá því og þetta eru skilmálarnir og við þekkjum það. Ef við sættum okkur ekki við skilmálana þá getum við auðvitað reynt að leita annarra lausna en það er ekkert sem bendir til þess að það sé skynsamlegt eins og staðan er," segir Gylfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×