Innlent

Mál Grettisgötuhrotta þingfest

Grettisgata 43, þar sem árásin átti sér stað.
Grettisgata 43, þar sem árásin átti sér stað.
Mál hinna svokölluðu Grettisgötuhrotta var þingfest fyrir héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þrír eru ákærðir í málinu; einn fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og tveir fyrir brot gegn lífi og líkama meðal annars. Mennirnir eru allir frá Litháen.

Karlmaður á fimmtugsaldri er ákærður fyrir að hafa að kvöldi miðvikudaginn 3. júní og aðfaranótt fimmtudagsins 4. júní 2009 í garði við hús að Grettisgötu og inni í húsinu margsinnis slegið annan mann í höfuðið, ýmist með krepptum hnefa eða flötum lófa, með þeim afleiðingum að hann missti að lokum meðvitund og hlaut stór glóðaraugu með miklum bólgum á báðum augum, skrámur hér og þar á höfði, mar og bólgur á enni, áverka á tannholdi og tönnum í efri góm, heilablæðingu, heilabjúg og að öllu líkindum höfuðkúpubotnsbrot.

Tveir karlmenn á þrítugsaldri eru einnig ákærðir í málinu. Annar þeirra fyrir að hafa slegið fórnarlambið með flötum lófa í andlitið en hinn fyrir að sparka í fótlegg fórnarlambsins. Mennirnir tveir eru einnig ákærðir fyrir brot gegn lífi og líkama, með því að hafa látið farast fyrir að koma fórnarlambinu undir læknishendur er hann var í lífsháska, en ákærðu kölluðu ekki eftir aðstoð sjúkraliðs fyrr en með hringingu til Neyðarlínunnar á fimmtudeginum klukkan 13.16, í kjölfar þess að utanaðkomandi aðili bað um að hringt yrði á sjúkralið eftir að viðkomandi hafði séð ástand fórnarlambsins þar sem hann lá meðvitundarlaus og með mikla áverka í andliti í herbergi árásarmannsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×