Innlent

Einkennileg hugmynd um alþingiskosningar

„Þetta hlýtur að vera úthugsað hjá þeim en þessi afstaða formanns Samfylkingarinnar er samt einkennileg," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, um þá tillögu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að kosið verði til Alþingis samfara hugsanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Þorgerður bendir á að ef ákveðið verði að fara í aðildarviðræður þá gæti það ferli tekið tólf til sextán mánuði. Ef síðan næðist samkomulag um aðild þá þyrfti að breyta stjórnarskrá til þess að af henni gæti orðið. „Til þess þarf að kjósa vegna þess að tvö mismunandi þing þurfa að samþykkja breytingu á stjórnarskrá. Og ef það á að fara kjósa til þings samfara þjóðar-atkvæðagreiðslu þá mun þingið ekki fá neitt svigrúm til þess að fara yfir efnismiklar stjórnarskrárbreytingar. Ég trúi því einfaldlega ekki að menn ætlist til þess að það verði kosið tvisvar á einu ári til Alþingis. Það væri nú ekki til að einfalda málin og stuðla að þeiri auknu festu í samfélaginu sem við þurfum," segir Þorgerður.

Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur nefnt þann möguleika að þjóðin greiði atkvæði um hvort fara eigi í aðildarviðræður. Þorgerður segir það fyrirkomulag vissulega koma til greina þótt hún sé ekki reiðbúin að taka af skarið um það núna hvort það sé rétta leiðin. „Þingið ætti að minnsta kosti að taka þá pólitísku ákvörðun," segir Þorgerður, sem sjálf kveðst sífellt sannfærðari um að rétt sé að ganga til viðræðna að ákveðnum forsendum gefnum sem varða auðlindir Íslendinga. Sjálfstæðismenn muni fyrir sitt leyti taka skýra afstöðu til Evrópumála á komandi landsfundi. „Eins og menn vita eru skiptar skoðanir innan flokksins en stjórnmálamenn eiga að taka skýra afstöðu á grundvelli upplýsinga og það munum við gera."

- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×