Erlent

Hyggjast láta flugfarþega standa til að spara pláss

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Michael O'Leary skortir ekki frumlegar hugmyndir til að bæta afkomu Ryanair.
Michael O'Leary skortir ekki frumlegar hugmyndir til að bæta afkomu Ryanair.

Flugfélagið Ryanair skoðar nú ýmsar leiðir til sparnaðar, þar á meðal að láta farþegana standa í flugferðum.

Michael O'Leary, framkvæmdastjóri Ryanair, kynnti ýmsar nýstárlegar sparnaðarhugmyndir á blaðamannafundi nýlega og fólst ein þeirra í því að láta farþegana standa upp á endann í flugferðum eða sitja á eins konar barstólum með sætisbelti um sig miðja. O'Leary reiknast til að með þessu megi fjölga farþegum um helming í hverri flugferð og lækka ýmsan kostnað um allt að 20 prósent.

Ryanair hefur þegar hafið viðræður við Boeing-flugvélaverksmiðjurnar um útfærslu þessa nýja fyrirkomulags auk þess sem sótt hefur verið um leyfi til írskra flugmálayfirvalda til að láta verða af því. Þá hyggst félagið einnig taka upp á því að rukka farþegana um eitt pund, sem nú eru rúmar tvö hundruð krónur, fyrir að nota salerni flugvélanna og auka þar með tekjurnar töluvert.

Hugmyndir O'Leary eru að nokkru leyti komnar frá kínverska flugfélaginu Spring sem hefur lagt fram áætlanir um að farþegarnir standi til að spara rými og minnka kostnað. Þetta fyrirkomulag getur þó varla talist þægilegt, að minnsta kosti ekki í lengri flugferðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×