Innlent

Byrjaði að ganga fyrir fjórum mánuðum - fór sex sinnum á Esjuna í gær

Andri Ólafsson skrifar
Íslandsmetið í Esjugöngu var að öllum líkindum slegið í gær en þá gekk Svanberg Halldórsson sex sinnum upp og niður fjallið sama daginn. Afrekið er ekki síður merkilegt af þeim sökum að það eru ekki nema fjórir mánuðir síðan Svanberg hóf að ganga fjöll.

Alls gekk hann 42 kílómetra sem er eitt Maraþon. Það sem gerir þetta afrek svo merkilegt er að Svanberg Halldórsson hóf ekki að ganga á fjöll fyrr en í febrúar á þessu ári.

„Nýársheitið var að gera eitthvað crazy. Ég ákvað að taka þátt í því sem er kallað erfiðustu skipulögðu göngu á Íslandi og ég ætla að standa við það. Ég byrjaði að ganga í byrjun febrúar og hef farið í um þrjátíu göngur síðan þá. Meðal annars gekk ég á Hvannadalshnjúk í apríl og hef gengið statt og stöðugt síðan þá," segir Svanberg.

Með nýársheitinu segist hann hafa öðlast nýtt líf.

„Tvímælalaust. Ég er hressari og það er auðveldara að vakna, ég hef einnig slegið af nokkur kíló og finnst ég vera lífsglaðari. Mér finnst eins og ég nái að smita útfrá mér til fjölskyldu og vina og fæ það jákvætt tilbaka. Ég er með góðan vin með mér í þessu og bróður minn, það hefur keðjuverkandi jákvæð áhrif og þetta verður yndislegt ár."




Tengdar fréttir

Gekk sex sinnum upp á Esjuna í dag - líklega íslandsmet

Svanberg Halldórsson tuttugu og sjö ára gamall Reykvíkingur gekk sex sinnum upp á Esjuna í dag en hann byrjaði klukkan sex í morgun. Göngunni lauk í kvöld á milli 21:00 og 22:00. Gangan er tæpir 43 km en hún er liður í undirbúningi fyrir hinn svokallaða Glerárdalshring. Svanberg gekk til styrktar krabbameinssjúkum börnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×