Innlent

Íslendingar mega ekki gleyma því hvernig valdi var misbeitt

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ólafur Ragnar segir það slæmt ef Íslendingar geti misnotað stöðu sína með þeim hætti sem gert var. Mynd/ GVA
Ólafur Ragnar segir það slæmt ef Íslendingar geti misnotað stöðu sína með þeim hætti sem gert var. Mynd/ GVA
Íslendingar mega aldrei gleyma því hvernig Hollendingar og Bretar misbeittu Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að ná sínu fram í Icesave deilunni. Þetta segir Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands.

Bretar og Hollendingar komu í veg fyrir að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tæki fyrir endurskoðun á efnhagsáætlun Íslands vegna Icesave málsins. Endurskoðun sjóðsins tafðist í átta mánuði en fyrir liggur að endurskoðunin verði tekin á dagskrá á miðvikudag. Engin erlend lán hafa borist til íslands síðan í nóvember vegna þessa.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir að það sé slæmt ef tvo ríki geta misnotað sæti sitt í stjórnum alþjóðlegra stofnana með þessu hætti. „Ég held þess vegna að það sé mikilvægt þó vonandi sé að nást niðurstaða í þessu icesave máli að það sé mikilvægt að við gleymum ekki því hvernig þetta mál var í raun og veru. Að við segjum öðrum þjóðum líka frá því hvernig Bretar og Hollendingar misbeittu stöðu sinni innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ólafur Ragnar segir þó að markmiðið eigi ekki að vera það að Íslendingar nái sér niðri á Bretum og Hollendingum. „Heldur fyrst og fremst að vara við því að alþjóðlegar stofnanir þar sem öll ríki heims eiga að sitja við sama borð séu misnotaðar með þessum hætti. Ég veit að af samtölum mínum að mörgum starfsmönnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var ekki vel við það" segir Ólafur Ragnar Grímsson .




Fleiri fréttir

Sjá meira


×