Innlent

Heildaraflinn jókst um 10% í desember

Heildarafli íslenskra skipa í desember, metinn á föstu verði, var 10,0% meiri en í desember 2007.

Greint er frá þessu á vefsíðu Hagstofunnar. Aflinn nam alls 85.774 tonnum í desember 2008 samanborið við 78.329 tonn í desember 2007.

Botnfiskafli jókst um 7.600 tonn frá desember 2007 og nam tæpum 33.300 tonnum. Karfaaflinn jókst um rúm 3.700 tonn, ufsaaflinn um rúm 3.000 tonn og afli þorsks um tæp 1.300 tonn miðað við desember 2007. Ýsuaflinn dróst hinsvegar saman um tæp 2.400 tonn samanborið við desember 2007.

Afli uppsjávartegunda nam tæpum 50.300 tonnum og var nær eingöngu síld. Uppsjávarafli stóð nokkurn veginn í stað miðað við desember 2007. Flatfiskaflinn var rúm 2.000 tonn í desember og jókst um rúm 600 tonn frá fyrra ári. Skel- og krabbadýraafli nam 50 tonnum og dróst saman um 82 tonn miðað við desember 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×