Innlent

Segir samþykkt Icesave munu minnka atvinnuleysi

seðlabankastjóri Seðalbankinn telur að ríkissjóður standi undir þeim skuldbindingum sem Icesave-samningurinn leggur á hann. Hann telur ástandið verða mun betra að ári verði samningurinn samþykktur. fréttablaðið/gva
seðlabankastjóri Seðalbankinn telur að ríkissjóður standi undir þeim skuldbindingum sem Icesave-samningurinn leggur á hann. Hann telur ástandið verða mun betra að ári verði samningurinn samþykktur. fréttablaðið/gva

Ríkissjóður stendur vel undir þeim skuldbindingum sem Icesave-samningurinn leggur á herðar þjóðinni. Þetta kemur fram í umsögn Seðlabanka Íslands um málið. Seðlabankastjóri, Svein Harald Øygard, segir að verði Icesave samþykkt verði minna atvinnuleysi að ári og staða fyrirtækjanna betri. Það að fella samninginn komi Íslendingum ekki undan því að borga.

Í umsögn bankans segir að gera megi ráð fyrir að í lok ársins 2015 verði búið að selja allar eignir gamla Landsbankans. Sé gert ráð fyrir 75 prósenta endurheimtum verði skuld íslenska ríkisins vegna samninganna 340 milljarðar króna. Sú upphæð samsvari 17 prósentum af áætlaðri vergi landsframleiðslu ársins 2009. Fyrsta greiðslan, árið 2016, mun nema 3,1 prósenti af vergri landsframleiðslu en sú síðasta, 2023, 1,4 prósentum.

Øygard segir að sú upphæð jafngildi því að sett verði til hliðar 1,2 prósent af vergri landsframleiðslu ár hvert meðan á samningstímanum stendur.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá á þriðjudag reiknar bankinn með að erlendar skuldir þjóðarinnar séu 200 prósent af vergri landsframleiðslu árið 2009, en þá reiknar bankinn með að hún verði 1.427 milljarðar. Erlendar skuldir eru þá um 2.800 milljarðar.

Seðlabankinn tekur fram að mat hans er mörgum óvissuþáttum háð. Óvissa sé um þróun hagvaxtar, tekjuöflun ríkissjóðs og útflutningstekjur, sem og gengi krónunnar, að ónefndu endurheimtuhlutfalli eigna Landsbankans ytra.kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×