Erlent

Vilja refsiaðgerðir fyrir skattaskjólin

Angela Merkel þýskalandskanslari ræddi regluverk í kringum fjármálastarfsemi í Evrópu við aðra leiðtoga Evrópuríkja, þar á meðal Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, og Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands (til vinstri) í Berlín í gær. Nordicphotos/afp
Angela Merkel þýskalandskanslari ræddi regluverk í kringum fjármálastarfsemi í Evrópu við aðra leiðtoga Evrópuríkja, þar á meðal Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, og Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands (til vinstri) í Berlín í gær. Nordicphotos/afp

Herða þarf reglur og eftirlit með fjármálakerfi heimsins, þar með talið vogunarsjóðum, og með þeim fjárfestum sem þar starfa, að mati leiðtoga nokkurra helstu Evrópuríkja, sem funduðu í Berlín í gær.

Í yfirlýsingu sem gefin var út að loknum fundi leiðtoga Bretlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Lúxemborgar, Spánar, Hollands og Tékklands kemur fram að leiðtogarnir hafi náð saman um sjö lykilatriði til að stuðla að stöðugra fjármálakerfi.

„Við þurfum að senda skýr skilaboð og grípa til afgerandi aðgerða til að efla á ný traust á fjármálamörkuðum og leiða heiminn í átt til vaxtar og aukinna atvinnutækifæra,“ sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari að fundi loknum.

Ekki verður upplýst um smáatriði samkomulagsins fyrr en það hefur verið kynnt leiðtogum annarra Evrópusambandsríkja. Þar kom þó fram vilji leiðtoganna til að skylda banka til að eiga stærri varasjóði til að bregðast við erfiðum aðstæðum.

Eftir fundinn kom fram í máli Merkel að leiðtogarnir vildu styrkja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og væru sammála um að ríki heims þyrftu að tvöfalda framlög sín til sjóðsins. Full þörf væri á því til að hann gæti hjálpað ríkjum heims þegar þau lentu í fjárhagslegum erfiðleikum.

„Nýtt regluverk væri merkingarlaust ef það felur ekki í sér refsiaðgerðir gegn skattaparadísum,“ sagði Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, að fundi loknum.

Hann sagði Evrópulönd nú vinna að lista yfir þekkt skattaskjól. Þá sé unnið að undirbúningi refsiaðgerða sem kunni að verða beitt gegn þeim haldi þau áfram að stunda það sem hann kallaði ábyrgðarlausa fjármálastarfsemi.

Þau atriði sem samkomulag var um á fundinum í gær verða grunnur að viðræðum leiðtoga 20 stærstu hagkerfa heims, G20, í London í byrjun apríl.

Reiknað er með því að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sitji fundinn í London. Bandaríkin og Bretland beittu sér gegn Merkel þegar hún vildi efla regluverk á fjármálamarkaði fyrir tveimur árum.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×