Innlent

Tugmilljarða framkvæmdir að hefjast - of lítið, segja verktakar

Framkvæmdir fyrir tugmilljarða króna á þessu ári voru kynntar á útboðsþingi í Reykjavík í dag. Of lítið, segja verktakar.

Þetta er listinn yfir hafnarframkvæmdirnar sem boðnar verða út á árinu en hátt í tvöhundruð fulltrúar verktaka, verkfræðistofa, arkitekta og annarra sem lifa á framkvæmdum mættu á útboðsþing í dag til að sjá er í pípunum.

Fulltrúi Reykjavíkur, Óskar Bergsson, segir borgina ætla vera stórtæka. Framkvæmdir upp á tíu milljarða króna séu að fara í gang; í skólum, leikskólum, íþróttamannvirkjum, í uppbyggingu miðborgar og gatnagerð.

Hjá Vegagerðinni verður þetta næstmesta framkvæmdaárið. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir að þegar séu í gangi 13-14 milljarða verkefni um land allt og 6-7 milljörðum verði bætt við það í nýframkvæmdir á árinu.

Það verða líka orkuframkvæmdir. Stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, Guðlaugur Sverrisson, segir að verið sé að fara að bjóða út stöðvarhús á Hellisheiði fyrir vélasamstæður 5 og 6, upp á 2,5 milljarða króna. Auk þess séu að fara í gang fráveitu- og dreifikerfisframkvæmdir upp á 1,5 milljarða króna, til viðbótar við átta milljarða verkefni sem þegar séu í gangi.

Stærsta verkið gæti orðið hjá Landsvirkjun, Búðarhálsvirkjun. Jóhann Kröyer verkefnisstjóri vonast til að það geti gerst seint í haust en segir það háð því að orkusölusamningi sé lokið við Rio Tinto Alcan og að fjármagn fáist í verkið.

Karlarnir í salnum virtust samt ekki sáttir. Hörður Jónsson hjá Óðalhúsum sagði þetta frekar dapurt. Sigfús Magnússon hjá Allraverki sagði þetta ekki burðugt. Sigurbjörn Jónsson malarflutningaverktaki hefði viljað sjá eitthvað meira og sama sagði Páll Árni Guðmundsson jarðvinnuverktaki hjá Gilsverki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×