Innlent

Mega banna mótmælendum að hylja andlit sitt

Breki Logason skrifar
Stefán Eíríksson fyrir miðju ásamt Jóni HB Snorrasyni og Herði Jóhannessyni.
Stefán Eíríksson fyrir miðju ásamt Jóni HB Snorrasyni og Herði Jóhannessyni. MYND/VILHELM

Nokkuð hefur borið á því að mótmælendur sem hafa haft sig hvað mest í frammi undanfarnar vikur og mánuði hylji andlit sitt með treflum og lambhúshettum. Hér á landi geta skapast þær aðstæður að lögreglu sé heimilt að krefjast þess að grímurnar séu teknar niður. Stefán Eiríksson lögreglustjóri segir að grímurnar hafi ekki valdið lögreglu vandræðum hingað til. Hann segir mikilvægast að laga það ástand sem uppi hefur verið í stað þess að magna það.

„Það eru ákveðnar forsendur í lagaákvæðinu sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að við getum beitt því," segir Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Í lögreglulögum númer 90 frá 1996 segir:

„Ef uggvænt þykir að óspektir verði á mótmælafundi, í kröfugöngu eða á annarri slíkri samkomu á opinberum stað er lögreglu heimilt að banna að maður breyti andliti sínu eða hylji það eða hluta þess með grímu, hettu, málningu eða öðru þess háttar sem er til þess fallið að koma í veg fyrir að kennsl verði borin á hann."

„Ef þessar aðstæður skapast og ef þetta leysir þann vanda sem við okkur blasir útilokum við ekki að beita þessu," segir Stefán.

Hann segir grímurnar ekki hafa valdið lögreglu vandræðum hingað til. „Við búum nú bara í þannig landi að nú er allt á kafi í snjó og fólk er með húfur og trefla sem hylja andlitið. Við höfum ekki lent í vandræðum með þetta hingað til."

Hann segir bæði lögreglu og fjölmiðla vera í erfiðri stöðu gagnvart mótmælendum en lögregla vinni nú að því að laga ástandið í stað þess að magna það upp með einhverjum hætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×