Lífið

Sigurvegari söngkeppni ætlar í þyrluflug

Kristín Þóra Jóhannsdóttir er kominn í hóp fremstu söngvara Íslands.
Kristín Þóra Jóhannsdóttir er kominn í hóp fremstu söngvara Íslands.

„Þetta var ótrúlega skemmtilegt," lýsir Kristín Þóra Jóhannsdóttir, nýkrýndur sigurvegari Söngkeppni Framhaldsskólanna, sigurtilfinningunni að sigra keppnina. Kristín Þóra er nemi í fjölbrautaskólanum á Vesturlandi og segist sjálf vera skagamaður í húð og hár.

Hún sigraði keppnina með laginu Angel eftir breska poppstirnið Robbie Williams. Lagið var flutt í útgáfu Jessicu Simpsons. Textinn var á íslensku en það var leikarinn Ólafur SK Þorvaldz sem snaraði textanum yfir á íslensku.

„Ég stressaði mig ekkert á þessu," segir Kristín spurð hvort hún hafi ekki verið stressuð yfir að flytja lagið fyrir alþjóð og bætir við: „Ég var bara ekki að fatta að það væru þúsundir heima hjá sér að horfa á þetta."

Kristín lýsir upplifuninni sem sjúklega skemmtilegri. Spurð hvort flutningurinn hafi gengið snurðulaust fyrir sig svara hún því til að það hafi verið smá hnökrar í byrjun, svo hafi allt gengið bráðvel.

„Það var sjúkleg samkeppni," segir Kristín spurð hvort hún hafi búist við að vinna keppnina. Hún segir að sigurinn hafi komið henni gríðarlega á óvart: „Ég var eiginlega efins um að vinna keppnina."

Kristín hefur sönghæfileika frá náttúrunar hendi, hún segist aldrei hafa farið í söngtíma og því viti hún í sjálfu sér ekkert hvað hún er að gera, eins og hún orðar það sjálf.

Spurð hvort hún hafi sungið mikið opinberlega segist hún hafa fengið tækifæri til þess að syngja í söngleik á vegum skólans.

„Annars rek ég bara alla að heima, loka öllum gluggum og hurðum, svo syng ég hástöfum," segir þessi upprenandi söngkona sem nú er kominn í hóp með listamönnum eins og Páli óskari Hjálmtýssyni, Emilíönu Torrini og fleirum.

Spur hvað taki nú við, þá segist hún vera á leiðinni frá Akureyri til Akraness.

„Ég held að það verði einhver sigurmóttaka þegar ég kem heim," segir hún og bendir á að sigurinn sé líka bæjarins.

Vísir óskar Kristínu til hamingju með sigurinn og óskar henni velfarnaðar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.