Flokksþing framsóknarmanna verður haldið um næstu helgi í Valsheimilinu að Hlíðarenda við Öskjuhlíð í Reykjavík. Þar verður tekist á stefnu flokksins í Evrópumálum og ný forysta kjörin. 78 ár eru á milli elsta þingfulltrúans og þess yngsta sem verður 17 ára í mars næstkomandi. Elsti þingfulltrúinn er Vilhjálmur Hjálmarsson, fyrrverandi ráðherra, frá Mjóafirði sem verður 95 ára í september.
Alls eiga 962 fulltrúar rétt til setu á þinginu af tæplega 12.000 félagsmönnum í flokknum. Þingfulltrúarnir tilheyra 83 félögum innan flokksins frá öllu landinu.
Það er ljóst að flokksþingið verður vettvangur mikilla breytinga þar sem flest bendir til talsverðra breytinga á stefnu flokksins, auk þess sem ljóst er að nýir einstaklingar verða í það minnsta kosti kosnir í stöðu formanns og varaformanns flokksins.