Innlent

Fær ekki milljónina frá Háskólanum

Anna Ingólfsdóttir.
Anna Ingólfsdóttir.

Jafnréttisstofa tapaði í dag máli sem stofnunin höfðaði fyrir hönd Önnu Ingólfsdóttur, prófessors í tölvunarfræði við Hákólann í Reykjavík, gegn Háskóla Íslands. Þess var krafist að viðurkennt yrði að gengið hafi verið fram hjá Önnu við ráðningu dósents í tölvunarfræði við verkfræðideild og að henni yrði dæmd ein milljón króna í skaðabætur. Því hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur.

1. janúar 2006 var karlmaður ráðinn í stöðuna. Í júní sama ár komst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að Háskóli Íslands braut jafnréttislög þegar maðurinn var ráðinn í stað Önnu. Kærunefndin taldi að gengið hefði verið fram hjá konu sem hafði meiri reynslu af kennslu og rannsóknum, þrátt fyrir að konur væru í minnihluta kennara við deildina. Það var síðan í febrúar á seinasta ári sem Jafnréttisstofa höfðaði  mál gegn skólanum fyrir hönd Önnu.

Héraðsdómur féllst ekki á að Háskóli Íslands hafi brotið stjórnsýslureglur þegar hæfni umsækjenda var metin eða mismunað Önnu vegna kynferðis við ráðninguna.

Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×