Innlent

Rætt um að krónubréf fari í mannvirkjagerð

Viðræður standa yfir við erlenda eigendur krónubréfa um að hluta þeirra verði umbreytt í fjárfestingar í orkuverum og samgöngumannvirkjum á Íslandi. Slíkir samningar gætu létt þrýstingi af krónunni og um leið stuðlað að umfangsmiklum framkvæmdum.

Erlendir aðilar eiga um fjögurhundruð milljarða í íslenskri krónueign, fjármuni sem myndu kolfella gengi krónunnar ef ekki væru gjaldeyrishömlur. Í blaðagrein fyrir áramót lagði Jón Gunnarsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokks, til að samið yrði við eigendur krónubréfanna um að skammtímakröfum þeirra yrði breytt í langtímafjárfestingar.

Hinir erlendu aðilar væru bundnir með fjármagnið, þeir væru í óvissu hvort og hvenær þeir næðu því út. Þetta væru gagnkvæmir hagsmunir, þrýstingi yrði létt af krónunni og Íslendingar kæmu hjólum atvinnulífsins í gang, færu peningarnir í framkvæmdir. Jón nefnir tvöföldun Suðurlandsvegar, jarðgangagerð, virkjanir og stóriðjuframkvæmdir.

Og það er skemmst frá því að segja að viðræður eru komnar í gang, með aðkomu ríkisstjórnar, Landsvirkjunar og Seðlabankans, sem þarf að hafa samráð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, en einnig hafa einkafyrirtæki rætt beint við fulltrúa eigenda krónubréfa, og vonast Jón eftir jákvæðri niðurstöðu.

Jón segir að vinna verði hratt en ljóst sé að þetta taki nokkurn tíma, vikur eða jafnvel mánuði.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×