Fótbolti

Vaduz staðfestir komu Guðmundar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Steinarsson, til hægri, í leik með Keflavík síðastliðið sumar.
Guðmundur Steinarsson, til hægri, í leik með Keflavík síðastliðið sumar. Mynd/Víkurfréttir
FC Vaduz hefur staðfest á heimasíðu sinni að Guðmundur Steinarsson hefur samið við félagið til 30. júní næstkomandi.

Guðmundur er einn fjögurra leikmanna sem koma til Vaduz á einu bretti en þeir sömdu allir við félagið til loka tímabilsins. Tveir Þjóðverjar - markvörður og varnarmaður - sömdu við félagið sem og franskur framherji.

Vaduz er höfuðborgin í smáríkinu Liechtenstein sem liggur á landamærum Austurríkis og Sviss. Félagið leikur í svissnesku úrvalsdeildinni þar sem nú er vetrarhlé. Vaduz er í næstneðsta sæti deildarinnar með fjórtán stig.

Guðmundur var markakóngur Landsbankadeildar karla síðastliðið sumar er hann skoraði sextán mörk í 21 leik. Hann var einnig valinn besti leikmaður mótsins. Alls á hann að baki 181 leik í efstu deild hér á landi og hefur hann skorað í þeim 64 mörk. Hann lék einnig með danska félaginu Brönshöj tímabilið 2002-3.

Það er þó ekki útilokað að Guðmundur geti leikið hér á landi í sumar en þá ekki fyrr en eftir 15. júlí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×