Lífið

Sölvi í loftið á Skjá einum

Sölvi Tryggvason
Sölvi Tryggvason

Sjónvarpsmaðurinn Sölvi Tryggvason byrjar með nýjan þátt á Skjá einum á laugardaginn. Þátturinn sem ber heitið Spjallið með Sölva verður klukkustíma langur og verður bæði á léttu nótunum og þeim alvarlegri að sögn Sölva. „Það fer bara allt eftir viðmælendunum." Fyrstu gestir þáttarins verða Guðni Ágústsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Jóhannes Kristjánsson eftirherma.

„Nei ég verð nú ekki með neitt uppistand," segir Sölvi aðspurður hvort hann sé hinn íslenski Jay Leno. „Þetta verður fyrst og fremst viðtalsþáttur og það fer allt eftir viðmælendunum hvort hann sé alvarlegur eða léttur. Það verður allt leyfilegt."

Þátturinn verður á dagskrá vikulega en Sölvi er með tvö sett í þættinum. „Annarsvegar eru þetta svona sófastólar ekkert ósvipað því sem Logi í beinni er með, svo er ég með annað meira svona yfirheyrslusett við borð."

Sölvi segist einnig hafa talað við Þorleif Arnarson leikara sem ætlar að koma í þáttinn og sprella. „Hann mun bregða sér í hin ýmsu gervi, hvort sem það verður áhættufjárfestir eða yfirmaður efnagsbrotadeildar. Ég hugsa samt að við náum því ekki í fyrsta þáttinn."

Sölvi sem áður var einn af þáttastjórnendum Íslands í dag er mjög spenntur yfir nýja þættinum sem hann segir lengri en hann hefur áður tekist á við. „Þetta er því mjög spennandi og svona svolítið öðruvísi."

Sölvi segir að forsvarsmenn Skjás eins hafi beðið sig að vera með þátt sem hann hafi síðan mótað í samvinnu þá. „Þetta á eflaust eftir að þróast eitthvað ennfrekar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.