Innlent

Í kapphlaupi um að moka upp makrílnum

Togarinn Faxi tekur troll.
Togarinn Faxi tekur troll. MYND/þORVALDUR ÖRN KRISTMUNDSSON
Íslenski síldveiðiflotinn er kominn í æðisgengið kapphlaup um að moka sem mestu upp af makríl. Tilgangurinn er að tryggja sér veiðireynslu áður en stjórnvöld skipta makrílkvóta milli skipa. Fyrir vikið fer mestur hluti aflans í bræðslu.

Umdeildar makrílveiðar Íslendinga eru nú að komast í fullan gang og hefur síldveiðiflotinn að mestu fært sig af Jan Mayen svæðinu norðaustur af Íslandi og suðaustur fyrir landið í svokallaðan Rósagarð, þar sem þau veiða makríl í bland við síld.

Faxi er á nú landleið og er væntanlegur til Vopnafjarðar í kvöld með 1.500 tonn. Tveir þriðju hlutar aflans er makríll og fer allt í bræðslu. Þá kom Margrét EA inn til Neskaupstaðar í gær með 540 tonn en þar var meirihlutinn síld og aðeins um 50 tonn af makríl.

Tólf skip eru nú að veiðum í Rósagarðinum, sem er djúpt út af Suðausturlandi, ekki langt frá lögsögumörkunum við Færeyjar. Þau hafa flest parað sig við makrílveiðarnar, það er draga tvö og tvö saman risastórt flottroll, en þannig þykir hentugast að ná makrílnum. Þannig fékk Faxi sinn afla með öðru Grandaskipi, Ingunni, sem nú veiðir saman með þriðja skipinu frá Granda, Lundey. Þá draga Norðfjarðarskipin Börkur og Birtingur saman troll, Vestmannaeyjaskipin Sighvatur Bjarnason og Kap eru saman, og Hornafjarðarskipin Ásgrímur Halldórsson og Jóna Eðvalds, svo dæmi séu nefnd.

Með þessari aðferð keppast þau um að fiska sem mest á skemmstum tíma til að afla sér sem mestrar veiðireynslu áður en íslensk stjórnvöld skipta kvóta á milli skipa en þau hafa aðeins gefið út einn heildarkvóta á makríl, 112 þúsund tonn. Viðmælendur fréttastofu segja kapphlaupið um veiðireynsluna milli útgerða það ákaft að minna sé hirt um að gera verðmætan matfisk úr makrílnum heldur muni hann að mestu fara í bræðslu.

Íslendingar stunda veiðarnar í andstöðu við önnur ríki innan Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, sem ekki hafa viljað viðurkenna rétt Íslendinga til makrílveiða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×