Innlent

Viðskiptanefnd telur áfram þörf á Bankasýslu

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður viðskiptanefndar Alþingis.
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður viðskiptanefndar Alþingis. Mynd/GVA
Meirihluti viðskiptanefndar telur áfram þörf á að starfrækja Bankasýslu ríkisins, þrátt fyrir samkomulag sem náðst hefur við skilanefndir gömlu bankanna um að erlendir kröfuhafar eignist hugsanlega mikinn meirihluta í Íslandsbanka og Nýja Kaupþingi.

Þetta kemur fram í framhaldsáliti sem nefndin skilaði í dag.

Nefndin tók Bankasýsluna og eigandastefnu ríkisins til umfjöllunar á ný eftir að samkomulagið við skilanefndirnar lá fyrir, en upphaflega var gert ráð fyrir að ríkið yrði eigandi allra stóru bankanna þriggja.

Í framhaldsálitinu segir hins vegar að jafnvel þótt samkomulagið gangi eftir og erlendir kröfuhafar taki Íslandsbanka og Nýja Kaupþing yfir muni ríkið áfram fara með 60 til 70 prósenta hlutdeild á fjármálamarkaði.

Þessi umsvif telur nefndin svo mikil að þörf sé fyrir Bankasýslu til að fara með þá eignarhluti hins opinbera.

Þá bendir meirihluti nefndarinnar einnig á að ekki muni skýrast hvort kröfuhafarnir uppfylli skilyrði FME og séu tilbúnir til að taka að sér eignarhluti í nýju bönkunum fyrr en í september.

Ýmsir gestir komu á fundi viðskiptanefndar við umfjöllun um málið. Þar á meðal átti hún símafund við Mats Josefson, efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×