Innlent

Skref stígið frammá við í bankamálum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vilhjálmur Egilsson er ánægður með það skref sem var stigið í bankamálum. Mynd/ Rósa.
Vilhjálmur Egilsson er ánægður með það skref sem var stigið í bankamálum. Mynd/ Rósa.
„Mér finnst þetta mjög jákvætt og þess vegna í samræmi við þá nálgun sem ég hef talað fyrir allt frá því í nóvember. Þetta er að mínu mati skref frammá við og gefur mikla möguleika til þess að vinna vel úr stöðunni," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um samning ríkisins við skilanefndir bankanna.

Vilhjálmur telur það vera mjög jákvætt að hafa erlenda eigendur að bönkunum. „Og líka það sem er að gerast. Það er verið að flytja einhverjar eignir sem eru undir forsjá skilanefndana í gömlu bönkunum yfir í nýju bankana, erlendar eignir. Með því held ég að séu miklu meiri líkur á því að hægt sé að búa til hagkvæma banka á nýjan leik sem hafa erlendar tengingar og miklu betri aðgang að erlendum fjármagnsmörkuðum en íslensku bankarnir myndu hafa miðað við þetta eignasafn sem er í þeim núna," segir Vilhjálmur

Vilhjálmur segir að þar sem innistæðurnar séu orðnar það stór hluti af skuldastöðunni í nýju bönkunum sé mjög erfitt að sjá frammá það hvernig slíkir bankar geti fengið fjármögnun til viðbótar við innistæðurnar því innistæðurnar séu nú komnar í forgang samkvæmt neyðarlögunum. „Þess vegna þarf að nálgast þetta eftir öðrum leiðum og mér sýnist þetta bara vera komið í mjög góðan farveg sem er vel hægt að vinna úr og koma þessum hlutum í þokkalegt horf. Þannig að ég er mjög feginn að þetta leystist svona," segir Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×