Innlent

Aldrei fleiri fangar á Íslandi

Telma Tómasson skrifar
Aldrei hafa fleiri fangar verið í fangelsum landsins en nú. Lágmarksöryggis er gætt, en ekki má mikið út af bregða, segir forstjóri Fangelsismálastofnunar.

Gripið hefur verið til þess ráðs að láta fanga tvímenna í klefum í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, fangelsinu í Kópavogi og á Akureyri, plássum hefur verið fjölgað á Kvíabryggju, gæsluvarðhalds- og afplánunarfangar eru í klefum í lögreglustöðinni við Hverfisgötu og er útlit fyrir að tveir og tveir þurfi að vera saman í klefa í einverjum mæli á Litla-Hrauni ef fram fer sem horfir.

Ástæður eru að sögn Páls Winkel, forstjóra Fangelsismálstofnunar, meðal annars þær að stór fíkniefnamál hafa komið upp að undanförnu, mörg kynferðisbrotamál komið fram í dagsljósið og fleiri alvarleg sakamál. Fjöldi fanga með erlendan ríkisborgararétt jókst gríðarlega á síðasta ári og hafa ofbeldismál þeim tengdum einnig orðið til þess að þrengja að.

Hann segir að lágmarksöryggis sé gætt, bæði fyrir fanga og fangaverði, en vissulega geti hætta skapast og ekki megi mikið út af bregða.

Á sama tíma og álag eykst á fangelsisstofnanir, lengjast biðlistar þeirra sem bíða afplánunar - klárlega vantar fleiri fangarými. Áætlanir um byggingu nýs fangelsis fóru hins vegar út um þúfur við bankahrunið og í þessu árferði segir Páll ekkert svigrúm til niðurskurðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×