Innlent

„Ég fer ósár frá þessu“

Lúðvík Geirsson
Lúðvík Geirsson

Lúðvík Geirsson bæjarstjóri í Hafnarfirði var í baráttusæti Samfylkinginarinnar í Suðvesturkjördæmi. Þegar síðustu tölur komu í hús nú rétt rúmlega 9:00 í morgun var ljóst að hann var ekki inni. Hann hefur verið inni og úti í alla nótt og segist í samtali við Vísi hafa spáð því að hann yrði Samúel Örn fram undir morgun og það virðist hafa ræst.

„Ég fór í sturtu og var að koma, það virðist vera sem svo að ég séu úti. Við sóttum fram til sigurs í þessu kjördæmi og ég bauð mig fram í baráttusæti. Þessi útkoma er það besta sem við höfum fengið hér í kraganum og þau atkvæði nýttust okkur í nýja þingmenn annarsstaðar," segir Lúðvík.

„Ég fer alveg ósár frá þessu og ég er fyrst og fremst ánægður með þá niðurstöðu sem flokkurinn fékk. Það var mikið lagt undir með að taka þetta sæti en ég hafði allt að vinna og engu að tapa."

Lúðvík segist vera í vinnu sem bæjarstjóri í Hafnarfirði og hann muni halda þeirri vinnu áfram.

„Ég fer núna klukkan 10:00 og ávarpa þing íþróttasambands Hafnarfjarðar, skylduverkin halda bara áfram."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×