Innlent

Leikskólastjóri í Sjálandi: Rýmingin gekk vel

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar
Frá leikskólanum Sjáland í Garðabæ. Myndin er tekin af vef leikskólans.
Frá leikskólanum Sjáland í Garðabæ. Myndin er tekin af vef leikskólans.
„Hér er allt með kyrrum kjörum," segir Ída Jensdóttir, leikskólastjóri á leikskólanum Sjálandi í Garðabæ. Reykur kom upp í rafmagnstöflu leikskólans í dag og þurfti að kalla til slökkvilið. „Þetta var enginn eldur, bara reykur."

Ída segir að börnin hafi verið róleg yfir atburðinum. Að loknu starfi slökkviliðsins fengu þau að skoða búnaðinn sem það býr yfir og þótti mikið til koma. Hluti af börnunum var inni í húsinu þegar reykurinn kom upp. „Rýmingin gekk mjög vel og bæði börnin og kennararnir eiga hrós fyrir. Við fengum einmitt hrós fyrir góð viðbrögð hjá slökkviliðinu," segir Ída en leikskólinn er með vel ígrundaða viðbragðsáætlun þegar svona aðstæður koma upp.

Ída telur að börnin hafi ekki orðið fyrir áfalli vegna atburðarins. „Það myndi ég ekki ætla. Við þurftum auðvitað að fara snögglega út en það var enginn æsingur í gangi," segir Ída.

Hún segir engar skemmdir vera á húsinu utan við rafmagnstöflu en hluti hússins er enn án rafmagns. Hún segir foreldra hafa brugðist við fregnunum af mikilli ró. „Við sendum strax út tilkynningu og það hefur enginn komið til þess að sækja barnið sitt."


Tengdar fréttir

Eldur í rafmagnstöflu í leikskóla í Garðabæ

Eldur kom upp í rafmagnstöflu í leikskólanum Sjálandi í Garðabæ í morgun. Vel gekk að slökkva eldinn að sögn vaktstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu og voru öll börnin komin út úr skólanum þegar slökkviliðið bar að garði og gekk rýmingin vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×