Innlent

Landsmótið kannski í borginni

Vill athuga sóknarfæri mótshalds í þéttbýli.
Vill athuga sóknarfæri mótshalds í þéttbýli.
„Markmiðið er að við fáum að njóta hestsins við sem besta umgjörð,“ segir Haraldur Þórarinsson, formaður Landssambands hestamannafélaga, um þá samþykkt stjórnar sambandsins að ganga til viðræðna við hestamannafélagið Fák um að halda Landsmót 2012 á svæði félagsins í Víðidal.

Haraldur bendir á að ekki sé endan­lega afráðið hvar Landsmót 2012 verði haldið. Samkvæmt reglugerð þurfi að byrja á að ræða við þau félög sem til greina komi, til þess að ná samningum.

„Það er ljóst að við höfum verið með mjög gott mótahald úti á landi, á Vindheimamelum og Hellu, sem gengið hefur mjög vel,“ segir Haraldur. „Við viljum athuga hvort hugsanlega séu meiri sóknarfæri til að mynda í markaðssetningu íslenska hestsins með því að fara inn í þéttbýlið. Spurningin er hvort við getum gert eitthvað nýtt á þessu svæði sem við getum ekki gert úti á landi. Það eru ýmsar hugmyndir á lofti varðandi nýjungar.“

Haraldur segir ljóst að ekki verði haldið landsmót, eins og gerist í sveit, í Víðidal. Enda sé ekki verið að reyna það. Hins vegar séu ýmis atriði, sem liggi betur við þar, svo sem aðgengi knapa og varsla fjölmargra, verðmætra hrossa.- jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×