Innlent

Fjárframlög aukin í rannsókn á hruninu

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon greindu frá fyrirhuguðu lagafrumvarpi um kjararáð sem mun ákvarða laun æðstu stjórnenda opinberra fyrirtækja. Einnig var greint frá fyrirhuguðu frumvarpi um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.FRÉTTABLAÐIÐ/aRNÞÓR
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon greindu frá fyrirhuguðu lagafrumvarpi um kjararáð sem mun ákvarða laun æðstu stjórnenda opinberra fyrirtækja. Einnig var greint frá fyrirhuguðu frumvarpi um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.FRÉTTABLAÐIÐ/aRNÞÓR

„Við munum efla embættið og væntanlega fjölga saksóknurum," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á fundi forystumanna ríkisstjórnarinnar með blaðamönnum í gær.

Steingrímur sagði að ákveðið hefði verið að auka fjárframlag til embættis sérstaks saksóknara. Óljóst er hversu mikið framlagið muni hækka. Aukningunni er ætlað að tryggja viðunandi aðstöðu rannsakenda og kemur í kjölfarið á gagnrýni Evu Joly á umgjörð rannsóknarinnar.

Greint var frá fyrirhuguðu frumvarpi til laga um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Frumvarpið felur í sér að Alþingi getur með einföldum meirihluta boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá er gert ráð fyrir að byggt verði á núverandi kosningakerfi og engin skilyrði um lágmarksþátttöku. Einnig kom fram að gert er ráð fyrir því að boðað verði til kosninga með að minnsta kosti þriggja mánaða fyrirvara.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra greindi frá því að Hagfræðistofnun og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hafi verið falið að vinna stöðumatsskýrslu sem nær allt aftur til ársins 1990 og fram til dagsins í dag. Skýrslunni er ætlað að meta árangur efnahagsaðgerða á því tímabili. Skýrslan á að vera tilbúin í september á þessu ári.

Steingrímur greindi einnig frá því að tillögur um eigenda- og eignarhaldsstefnu á fyrirtækjum í eigu ríkisins hafi verið kynntar á ríkisstjórnarfundi. Tillögurnar fela í sér að eignarhald ríkisins á bönkum og fjármálastofnunum verði fært til sjálfstæðra aðila sem fara með eignarhaldið og eftir eigendastefnu ríkisins. Frumvarp er væntanlegt í næstu viku.

Áætlað er að aðgerðir í ríkisfjármálum verði kynntar í næstu viku. Steingrímur telur ekki nauðsynlegt að grípa til uppsagna hjá hinu opinbera. Hugsanlegt er þó að starfsfólki muni fækka þar sem ekki verður ráðið í stöður sem losna.

Greint var frá fyrirhuguðu frumvarpi um kjararáð á vegum ríkisins. Kjararáðinu er ætlað að ákvarða laun æðstu stjórnenda opinberra fyrirtækja. Engin laun í opinbera kerfinu munu verða hærri en laun forsætisráðherra.

Ákveðið hefur verið að fresta þjóðlendukröfulýsingu ríkisins. Stóð til að ljúka þeirri vinnu fyrir 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×