Innlent

Segir seinni aðgerðina vegna heilaæxlisins hafa verið erfiðasta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir það hafa verið meira áfall þegar hún átti að fara til Stokkhólms í geislameðferð en ákveðið var að skera aftur vegna heilaæxlis sem hún var með. Hún segir jafn víst að hún nái sér að fullu og að sólin komi upp á morgun. Ingibjörg segir að síðustu fjórir til fimm mánuðir hafi verið sér afar erfiðir, bæði pólitískt séð og persónulega.

Þetta kom fram í viðtali í Fréttaaukanum á Rúv nú í kvöld. Þar lýsti Ingibjörg þeim dramatísku dögum eftir að hún hneig niður í New York og heilaæxli hennar uppgötvaðist.

„Tölfræðin segir okkur að svo og svo margir fái heilaæxli og ég hef engan rétt á að vera þar undanþegin, það var því ekkert svo mikið áfall að þetta skyldi fara svona. Þetta var hinsvegar mjög dramatískt því sama dag og ég er skorin upp þá hrynur Glitnir og þar með byrjar allt þetta ferli," sagði Ingibjörg.

Stolt af Jóhönnu forsætisráðherra

Hún segir áfallið fyrst hafa komið þegar hún fór til Stokkhólms í geislameðferð en ákvörðun var tekin um að skera aftur. „Það var erfiðast að gangast undir þetta í annað sinn."

Hún var einnig spurð út í vinsældir Jóhönnu Sigurðardóttur sem mælist mun vinsælli en Ingibjörg Sólrún.

„Mér finnst ekkert sérkennilegt þó Jóhanna njóti svo mikils fylgis. Hún hefur verið okkar vinsælasti stjórnmálamaður lengi og er okkar sýnilegi forystumaður á þessu augnabliki. Ég sjálf er mjög persónulega stolt yfir því að eiga hlut að því að Jóhanna sé forsætisráðherra. Síðustu fjórir til fimm mánuðir hafa verið mér mjög erfiðir bæði pólitískt og persónulega."

Aðspurð um hvað hefði gerst segir hún að margt Samfylkingarfólk hafi talið að flokkurinn hafi verið of lengi í samstarfi með Sjálfstæðisflokknum. „Mín pólitísku mistök eru ekki síst það að gefast ekki fyrr upp á því samstarfi enda var Sjálfstæðisflokkurinn ekki fær um að skila þeim breytingum á stjórnkerfi okkar sem við höfðum vonast eftir."

Jón Baldvin stóryrtur

Ingibjörg var einnig spurð út í mótframboð Jóns Baldvins Hannibalssonar og þær skoðanir hans að Ingibjörg eigi að víkja. „Það er þannig að ef við stjórnmálamenn gerum mistök þá eigum við ekkert að stíga endilega til hliðar vegna þess að við leggjum alltaf verk okkar og okkur sjálf undir dóm kjósenda og það er það sem ég er að gera."

Hún sagði Jón Baldvin einnig vera þeirrar gerðar að hann sé greindur en stóryrtur. Það hafi vissulega fleytt honum langt en henni finnst mjög rangt hjá honum að bera ábyrgð Samfylkingarinnar á hruninu til jafns við Sjálfstæðisflokkinn.

„Það má líkja þessu við hús sem hefur verið í smíðum í sautján ár. Við flytjum hinsvegar inn í sautján mánuði og það má ef til vill saka okkur um að hafa ekki farið nógu vel yfir steypuskemmdir eða tekið húsið nógu vel út. En Samfylkingin byggði ekki húsið og var ekki hönnuðurinn eða byggingameistarinn. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem ber ábyrgð á þessu húsi, því er ekki hægt að leggja þetta tvennt að jöfnu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×