Erlent

Breskir eldri borgarar hrúga í sig lyfjum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Nærri helmingur Breta, sem orðnir eru 65 ára og eldri, tekur inn meira en fimm tegundir lyfja að staðaldri.

Þetta sýnir ný könnun sem samtök lyfjaverslana í Bretlandi stóðu fyrir. Kemur þar fram að margt eldra fólk tekur inn mikla lyfjakokteila og í sumum tilfellum tekur fólk inn lyf við kvillum sem það er löngu laust við.

Þá viðurkennir um fimmtungur eldra fólks að það taki lyfin ekki alltaf í samræmi við leiðbeiningar læknis auk þess sem margir þekkja ekki aukaverkanir þeirra lyfja sem verið er að nota. Sumir eru jafnvel farnir að taka önnur lyf við aukaverkunum fyrri lyfjanna.

Paul Johnson, talsmaður lyfjaverslananna, segir að það sé engin furða að gamla fólkið ruglist í ríminu þegar það notar ef til vill hátt í tug mismunandi lyfja. Hann mælir með því að fólk fá ítarlegar leiðbeiningar, annaðhvort frá lækninum sínum eða lyfjafræðingi á vakt í lyfjaverslunum. Þetta fólk sé boðið og búið að aðstoða.

Johnson segir að nú sé í bígerð heilmikil herferð sem ætlað sé að vekja eldra fólk til meðvitundar um lyfjanotkun og hvetja það til að leita sér ráðgjafar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×