Íslenski boltinn

Spennandi leikir í Pepsi-deild karla í kvöld

Ómar Þorgeirsson skrifar
Grétar Sigfinnur Sigurðarson.
Grétar Sigfinnur Sigurðarson. Mynd/Arnþór

Þrír leikir fara fram í Pepsi-deild karla í kvöld. KR og Fylkir mætast á KR-velli, Stjarnan og Keflavík á Stjörnuvelli og Þróttur og Valur á Valbjarnarvelli.

KR-ingar hafa verið á mikilli siglingu undanfarið og ásamt því að standa sig vel í Evrópukeppni og VISA-bikar er liðið búið að vinna fjöra leiki í röð í Pepsi-deildinni og nú síðast lágu Íslandsmeistarar FH í valnum.

Fyrirliðinn Grétar Sigfinnur Sigurðarson hjá KR er því afar sáttur með spilamennsku Vesturbæjarliðsins upp á síðkastið en hefur jafnframt báðar fætur á jörðunni.

„Við erum bara mjög samstilltir þessa dagana og svona búnir að finna hvernig við eigum að spila saman sem lið. Við byggjum á því og látum boltann ganga og höfum sjálfstraustið til þess að halda boltanum innan liðsins.

Við erum samt ekkert að tapa okkur og vitum að við þurfum að vera á tánum og mæta ákveðnir í hvern einasta leik," segir Grétar Sigfinnur sem á von á erfiðum en skemmtilegum leik gegn Fylki í kvöld en liðin eru í öðru og þriðja sæti deildarinnar.

„Þetta verður skemmtilegur leikur og það er ekkert annað en sigur sem kemur til greina á heimavelli okkar. Við getum komið okkur í góða stöðu með sigri og það er það sem við ætlum okkur.

Fylkismenn eru annars búnir að vera öflugir í sumar og berjast alltaf af krafti. En ef við mætum þeim í baráttunni þá held ég að við eigum eftir að taka stigin þrjú," segir Grétar Sigfinnur að lokum.

Stjarnan tekur á móti Keflavík á gervigrasinu í Garðabæ en liðið var að tapa sínum fyrsta leik þar í rúmt ár á dögunum þegar FH kom í heimsókn.

Liðin eru fyrir leiki kvöldsins í fjórða og fimmta sæti en bæði lið hafa átt erfitt uppdráttar upp á síðkastið. Stjarnan hefur tapað þremur leikjum í röð í deildinni og Keflavík tapað tveimur leikjum í röð með markatölunni samanlagt 0-8.

Á góðum degi eru liðin hins vegar illviðráðanleg og spila grimman sóknarbolta og það er því von á hörkuleik í kvöld.

Þróttarar eru með bakið upp við vegg í neðsta sæti deildarinnar fyrir heimsókn Valsmanna í kvöld og þurfa lífsnauðsynlega á þremur stigum að halda.

Gestirnir hafa ekki verið burðugir upp á síðkastið en geta svo að segja farið langt með að losa sig við falldrauginn með sigri gegn Þrótti

Leikir kvöldsins:

KR-Fylkir

Stjarnan-Keflavík

Þróttur R.-Valur












Fleiri fréttir

Sjá meira


×