Innlent

Ríkisendurskoðun gerði athugasemd við viðskiptin 1997

Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur sent frá sér skýrslu sem Ríkisendurskoðun vann fyrir stofnunina en skýrslan fjallar um viðskipti Frjálsrar miðlunar, fyrirtækis í eigu Brynhildar Gunnarsdóttur Birgissonar, við Lánasjóðinn meðan að Gunnar var stjórnarformaður sjóðsins. Stjórn LÍN hyggst ekki aðhafast frekar í málinu en skýrslan var kynnt fyrir stjórn sjóðsins í dag. Ríkisendurskoðun gerði athugasemd við viðskiptin árið 1997.

Í skýrslunni kemur fram að viðskipti LÍN við Frjálsa miðlun námu 11,3 milljónum króna á tímabilinu 1992-1998 og voru lagðir fram 40 reikningar frá Frjálsri miðlun.

Í skýrslunni segir að reikningarnir sýni fram á að Frjáls miðlun hafi raunverulega innt af hendi vinnu fyrir Lín. Hinsvegar er ekki hægt að bera verð þjónustu Frjálsrar miðlunar við þjónustu samkeppnisaðila þar sem ekki hafi verið leitað verðtilboða. Því er ekki hægt að fullyrða að hægt hafi verið að fá þjónustuna á betri kjörum.

Ríkisendurskoðun annaðist endurskoðun fyrir LÍN á þeim árum sem um ræðir. Við endurskoðun vegna ársins 1997 sem meðal annars var gerð grein fyrir í endurskoðunarskýrslu frá því í ágúst 1998 var talin ástæða til að gera athugasemdir við þessi viðskipti. Athugasemdin er svohljóðandi:

„Nokkuð er um að LÍN kaupi auglýsingar í blöð ýmissa stúdentasamtaka. LÍN hefur látið Frjálsa miðlun útbúa auglýsingafilmur í hin ýmsu stúdentablöð. Á árinu 1997 lagði fyrirtækið fram reikninga vegna alls 13 auglýsinga. Nam kostnaðurinn alls tæplega 1,3 milljónum króna. Þar sem ekki er nauðsynlegt að útbúa svo margar auglýsingar, en þær voru margar hverjar nánast eins, telur Ríkisendurskoðun kostnaðinn óþarflega háan."

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að þáverandi framkvæmdastjóra var gefinn kostur á að tjá sig um málið. Hann sagðist ekki muna hvernig það bar að að LÍN ætti viðskipti við Frjálsa miðlun þar sem langt væri um liðið frá því að viðskiptin áttu sér stað. Hann lagði þó áherslu á að stærstu viðskiptin samfara útgáfu bæklinga hefðu aðeins átt sér stað fyrstu árin en síðan hafi LÍN séð um þann þátt sjálfur.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×