Innlent

Stjórnvöld skoða að hækka persónuafslátt

Ríkisstjórnin. Mynd/ Stjórnarráðið.
Ríkisstjórnin. Mynd/ Stjórnarráðið.
Stjórnvöld ræða nú um að hækka persónuafslátt í samræmi við vísitölu neysluverðs, líkt og kveðið er á um í lögum. Hann gæti þó orðið mishár eftir tekjum.

Ekki var gert ráð fyrir hækkun persónuafsláttar í fjárlagafrumvarpinu og olli það andmælum launþegasamtaka, sem sökuðu ríkis­stjórnina um að hækka álögur á láglaunafólk. Vildu stjórnvöld standa við sitt ættu þau að hækka persónuafslátt um 6.600 krónur.

Afslátturinn á að hækka um næstu mánaðamót, en Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi fyrr í mánuðinum að þetta væri óvíst.

Einnig kemur til greina að lækka skattheimtu af lægstu tekjum í rúm 36 prósent, en almennur tekjuskattur er nú 37,2 prósent. Heimildir blaðsins úr stjórnarráðinu leggja þó áherslu á að ekkert hafi verið ákveðið endanlega um þetta.

Það gerir líka Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Hann bendir á að breytingar á persónuafslætti hafi lítið gildi nema í samhengi við skatthlutfall. Skattleysismörkin séu aðalatriðið.

„Það hefur legið fyrir síðan í sumar að við munum líta til jöfnunar­sjónarmiða við þessar skattbreytingar, sem þýðir að aukin skattbyrði verður frekar lögð á þá tekjuhærri en tekjulægri," segir hann.

Greint var frá því í Ríkissjónvarpinu í gær að í hugsanlegu þriggja þrepa skattkerfi yrði lagður 47 prósenta skattur á tekjur yfir hálfri milljón. Annað sem kemur allt eins vel til greina er tveggja þrepa kerfi bæði í virðisauka- og tekjuskatti.

Mjög ólíklegt mun vera að virðis­aukaskattur á bækur og tónlist verði hækkaður.

- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×