Erlent

Spánarkonungur á bandarískri matarhátíð

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Konungshjónin spænsku, Juan Carlos og Soffía.
Konungshjónin spænsku, Juan Carlos og Soffía. MYND/AFP

Íbúar Flórída eiga kost á konunglegum máltíðum á matvælahátíð í South Beach og fá meira að segja færi á að borða þær með alvöru konungi.

Búist er við að fjöldi matgæðinga láti sjá sig á Wine and Food-hátíðinni í Miami um helgina enda verður þar mikið um dýrðir og von á góðum gestum í ár þar sem þau hjón Juan Carlos Spánarkonungur og Soffía drottning mæta á staðinn og bragða á kræsingunum.

Það er þó ekki allra að fá að setjast til borðs með þeim hjónum, fyrir slíkt sæti þarf að greiða þúsund dollara sem samsvarar tæpum 115.000 krónum. Peningarnir renna að sjálfsögðu til góðgerðarmálefna en hátíðin er að þessu sinni haldin til styrktar ferðamáladeild Alþjóðaháskólans í Flórída enda hefur ferðabransinn sjaldan eða aldrei verið Bandaríkjamönnum mikilvægari en einmitt nú.

Skipuleggjendur hátíðarinnar eiga von á 50.000 gestum sem er sami fjöldi og kom í fyrra en nú til dags þykir það mjög góður árangur að halda sjó miðað við árið áður. Skemmst er að minnast risatæknisýningarinnar í Kaliforníu í haust sem var nánast mannlaus eftir mikinn uppgang undanfarin ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×