Erlent

Atkins synjað um reynslulausn í átjánda sinn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Susan Atkins.
Susan Atkins.

Konu úr glæpagengi Charles Manson hefur verið neitað í átjánda skiptið um reynslulausn.

Susan Atkins er 61 árs gömul og þjáist af krabbameini í heila. Hún situr í fangelsi í Kaliforníu og hefur gert allar götur síðan 1971 en hún hlaut ævilangan fangelsisdóm meðal annars fyrir þátt sinn í morðinu á Sharon Tate, eiginkonu kvikmyndaleikstjórans Romans Polanski, í ágúst 1969.

Atkins tilheyrði hinni svokölluðu Manson-fjölskyldu, alræmdu glæpagengi sem fór með oddi og egg um Kaliforníu á ofanverðum sjöunda áratug síðustu aldar. Alls hlaut Atkins dóm fyrir samverknað í sjö morðum og er þetta í átjánda skiptið sem hún kemur fyrir skilorðsnefnd Kaliforníu. Jafnoft hefur nefndin synjað beiðni hennar og er henni næst heimilt að sækja um reynslulausn árið 2012.

Það er reyndar sama ár og Manson sjálfur má sækja um slíka lausn en beiðni hans hefur verið hafnað ellefu sinnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×