Enski boltinn

Chelsea staðfestir ráðningu Hiddink

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hinn 62 ára gamli Guus Hiddink mun stýra Chelsea út leiktíðina.
Hinn 62 ára gamli Guus Hiddink mun stýra Chelsea út leiktíðina. Nordic Photos / AFP

Guus Hiddink hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Chelsea til loka tímabilsins en það var staðfest á heimasíðu félagsins í dag.

Hiddink mun hitta leikmenn Chelsea síðar í vikunni en ekki kemur fram hvort að hann muni stýra liðinu í bikarleik gegn Watford um helgina. Hann verður þó líklega viðstaddur á leiknum.

Chelsea mætir Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni þann 21. febrúar næstkomandi og verður það fyrsti leikur liðsins undir stjórn Hiddink.

Hann mun halda áfram að starfa sem landsliðsþjálfari Rússlands en þar er hann samningsbundinn til loka heimsmeistarakeppninnar í Suður-Afríku á næsta ári.

„Þetta er vinagreiði," sagði Hiddink. „Abramovich (eigandi Chelsea) hefur gert svo mikið fyrir rússneska knattspyrnu að ég vildi endurgjalda það. Hann hringdi í mig persónulega."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×