Innlent

Fjölmiðlamenn fjölmenna á Alþingi

Heimir Már Pétursson skrifar

Tuttugu og einn þingmaður situr nú á Alþingi sem áður hafði gengt störfum í fjölmiðlum. Flestir fjölmiðlamenn eru í þingflokki Samfylkingarinnar og meirihluti þeirra hefur unnið hjá Ríkisútvarpinu.

Fjölmiðlafólki á Alþingi fjölgaði um níu við kosningarnar síðast liðinn laugardag, eða úr tólf í tuttugu og einn. Þrjátíu og þrjú prósent þingmanna hafa starfað áður hjá fjölmiðlum. Hjá Framsóknarflokki koma nýir á þing Guðmundur Steingrímsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Hjá Sjálfstæðisflokki voru fyrir Árni Johnsen, Birgir Ármannsson, Jón Gunnarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir en Tryggvi Þór Herbertsson kemur þar nýr inn. Þráinn Bertelsson Borgarahreyfingunni er landsþekktur fjölmiðlamaður. Samfylkingin á fjölmennasta hóp fyrrverandi fjölmiðlamanna eða níu, sem er tæpur helmingur þingflokksins. Þar koma nýir inn Magnús Orri Schram, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Skúli Helgason. Fjórir af fjórtán manna þingflokki Vinstri grænna hafa unnið á fjölmiðlum en enginn nýr bættist við nú í kosningunum.

En hvar unnu þessir þingmenn?

Langflestir unnu hjá RÚV eða átta. Þau Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Magnús Orri Schram, Ólína Þorvarðardóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Skúli Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Ögmundur Jónasson.

Á Stöð 2 unnu þeir Jón Gunnarsson, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Tryggvi Þór Herbertsson.

Árni Johnsen, Birgir Ármannsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir unnu öll á Morgunblaðinu. Össur Skarphéðinsson var bæði á Þjóðviljanum og Alþýðublaðinu auk þess sem hann ritstýrði DV.

Álfheiður Ingadóttir og Árni Þór Sigurðsson unnu bæði á Þjóðviljanum en auk þess vann Árni Þór áður á Ríkisútvarpinu og Björgvin G. Sigurðsson var blaðamaður á Vikublaðinu sem tók við þegar Þjóðviljinn hætti útgáfu.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×