Innlent

Nýskráðum ökutækjum fækkaði um 42 prósent

Nýskráningum ökutækja fækkaði um 42 prósent á milli áranna 2008 og 2007. Umferðarstofa hefur tekið saman yfirlit yfir nýskráningar ökutækja og eigendaskipti á tímabilinu.

Ljóst er að nýskráningar ökutækja 2008 voru samtals 17.509 en á sama tímabili 2007 voru 30.034 ökutæki nýskráð hér á landi. Þetta er rúmlega 42% fækkun nýskráninga milli ára.

Eigendaskipti ökutækja á síðasta ári voru 83.589 en þau voru 105.545 á árinu á undan. Hlutfallsleg lækkun eigendaskipta nemur því 20,8% milli ára.

Mikill viðsnúningur

Þess má geta að í janúar 2008 voru rúmlega 64% fleiri ökutæki nýskráð borið saman við janúar 2007. Mikill viðsnúningur varð og desember 2008 voru nýskráningarnar aðeins 7,8% af nýskráningum desembermánaðar ársins á undan en það jafngildir 92,2% fækkun nýskráninga.

Nýskráð ökutæki í nýliðnum desmebermánuði voru 136 miðað við 1769 árið áður. Í janúar 2008 var fjöldi nýskráninga 2575 en þær voru 1571 árið 2007.

Hafa skal í huga að hér er um að ræða nýskráningu og eigendaskipti allra ökutækja ekki bara bifreiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×