Lífið

Furða, fræði, framkvæmd

leiklist Útskriftarhópurinn sem frumsýnir verk sín víða nú um helgina. Mynd/LHÍ
leiklist Útskriftarhópurinn sem frumsýnir verk sín víða nú um helgina. Mynd/LHÍ

Þeir kalla hana Fræði og framkvæmd, eina af yngri námsbrautunum í LHÍ sem hóf göngu sína haustið 2005 við leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Nú í vor lýkur annar árgangur brautarinnar námi og frá og með deginum í dag byrja nemendur að sýna lokaverkefni sín á dreifðum sýningarstöðum víða um höfuðborgina. Lýkur sýningartörninni ekki fyrr en 17. maí.

Í þessum útskriftarhópi brautarinnar eru átta nemendur og endurspegla útskriftarverkefni þeirra áherslu námsins á frumsköpun og eru því fjölbreytt; allt frá útvarpsverkum til innsetninga. Lögð er áhersla á að nemendur móti sér einstaklingsbundna sýn á form leiklistarinnar og er spennandi að sjá hvernig kennurum og nemendum hefur tekist til í náminu, og ekki síður hvernig þetta leiklistarfólk framtíðarinnar tekst á við lifandi miðil leiklistarinnar sem er svo háð bæði velþóknun áhorfenda og forvitni og opinberum styrkjum til frekari framkvæmda.

Fræði og framkvæmd átti að skapa grundvöll til nýsköpunar og auka fjölbreytni í íslensku sviðslistaumhverfi, segja þeir hjá Listaháskólanum og tóku sumir á þann veg að þar með væri hin svokallaða akademía að setja sig skör hærra annarri leiklistarstarfsemi í landinu.

Í náminu, sem er jöfnum höndum fræðilegt og verklegt, var lögð áhersla á leiklist í sem víðustum skilningi og er námið hugsað sem vettvangur fyrir bæði fræðilegar og listrænar rannsóknir á leiklist. Með rannsókn er ekki átt við akademíska rannsóknarvinnu í hefðbundnum skilningi. Námið átti að snúast um sögu, eðli, hlutverk og mörk leiklistarinnar, tungumál hennar og snertifleti við aðrar listgreinar.

Velt er upp grundvallarspurningum um form, hefð og aðferðir leiklistar og nemendum kynntar helstu kenningar og stefnur, bæði sem snerta leiklist og list leikarans, sem og aðrar tegundir af sviðslistum. Skorin segist búa nemendur undir störf eða framhaldsnám í leiklist með því að auka sérþekkingu þeirra og hvetja til frumsköpunar, auk þess sem námsbrautinni er ætlað að renna stoðum undir gagnrýna sýn nemandans á listgreinina, umhverfi sitt og eigin verk.

Lokaverkefnin verða víða sýnd næstu daga og er skilmerkilega greint frá sýningastöðum og tímum á vefslóðinni:

http://lhi.is/2009/05/06/utskriftarverkefni-nemenda-i-fraedi-og-framkvaemd-8-17-mai/.

pbb@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.