Lífið

Hannar dúkkur fyrir börn með aðskilnaðarkvíða

Oddný Magnea og dóttir hennar með nokkrar af dúkkunum. Oddný heldur á dúkku sem hún gerði eftir sjálfri sér.fréttablaðið/valli
Oddný Magnea og dóttir hennar með nokkrar af dúkkunum. Oddný heldur á dúkku sem hún gerði eftir sjálfri sér.fréttablaðið/valli

Vöruhönnuðurinn Oddný Magnea hannar dúkkur sem líkjast mæðrum barna. Þannig verður auðveldara fyrir börn að afbera fjarvist móðurinnar.

„Dúkkugerðin byrjaði þannig að ég á litla frænku sem er með aðskilnaðarkvíða. Sálfræðingur benti móðurinni á þessa leið: Að láta gera dúkku sem líktist henni til að láta barnið hafa þegar hún færi út í búð eða í göngutúr. Í raun og veru kemur dúkkan þannig í staðinn fyrir mömmuna á meðan hún er í burtu,“ segir Oddný Magnea Arnbjörnsdóttir vöruhönnuður.

Dúkkur hennar, sem hannaðar eru með það að markmiði að líkjast mæðrum barnanna, hafa notið vinsælda en hún segir að fyrsta dúkkan sem hún hannaði hafi einfaldlega spurst út og hún hafi því farið að taka pantanir.

„Ég fæ ljósmynd af mæðrunum og fæ jafnframt að vita hver uppáhaldslitur þeirra er til að nota í kjólinn til dæmis. Yfirleitt er ein mynd nóg en hún verður þá að vera dæmigerð fyrir útlit móðurinnar, með hennar brosi og þvíumlíkt. Ég nota einkennandi svipbrigði móðurinnar sem ég handmála, augnlit hennar og háralit. Einnig líki ég eftir klæðaburði hennar ef því er til að dreifa. Til að mynda var móðir sem bað mig um að gera dúkku eftir sér en hún býr í Los Angeles og gengur dagsdaglega í fínum Prada-kjólum og slíku. Hún sendi mér nokkra kjóla sem hún vildi að ég notaði sem fyrirmynd,“ segir Oddný og segir að það sé merkilegt hverju ná megi fram í andlitinu með því að líkja eftir augabrúnum, lagi augnanna og brosi.

„Fyrstu dúkkuna hannaði ég í febrúar en þetta hefur spurst hratt út. Dúkkurnar sem ég geri eru handgerðar frá A-Ö og engin þeirra er eins, enda verða þær ekki eins þegar fyrirmyndirnar eru ólíkar.“ Oddný er með heimasíðuna oddny.com en dúkkurnar eru til í þremur stærðum eftir því hversu stór eigandinn er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.