Innlent

Steingrímur: Felst á afsagnir Vals og Magnúsar

Steingrímur J. Sigfússon segir að boðað verði til hluthafafundar hjá Nýja Glitni og Nýja Kaupþingi svo fljótt sem auðið er til þess að fylla þau skörð sem stjórnarformennirnir Valur Valsson og Magnús Gunnarsson skilja eftir sig með afsögnum sínum. Þeir tilkynntu Steingrími í dag að þeir stæðu við afsagnir sínar þrátt fyrir að ráðherrann hefði beðið þá um að sitja fram að aðlfundum bankanna sem ráðgert er að halda í apríl.

„Ég felst á þeirra ósk úr því þeir eru ekki fáanlegir til þess að verða við beiðni um að sitja áfram," segir Steingrímur. „Þeir hafa rétt á því að segja sig frá þessu og nú verður bara gengið í að leysa málið."

Fjármálaráðherrann segir að boðað verði til hluthafafunda í bönkunum tveimur á næstu dögum og þá verði nýtt fólk skipað í stað þeirra félaga Vals og Magnúsar.

„Ég sendi þeim bréf til baka og þakkaði þeim fyrir þeirra störf," segir Steingrímur. Hann segist ekki hafa trú á því að pólitík búi að baki afsögnum þeirra Magnúsar og Vals. „Þetta var bara þeirra ósk. Þeir sváfu á þessu eina nótt og komust að sömu niðurstöðunni aftur og þá hefur það bara sinn gang," segir fjármálaráðherrann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×