Íslenski boltinn

Líklega síðasti leikur Jónasar Guðna fyrir KR á fimmtudag

Elvar Geir Magnússon skrifar
Jónas Guðni Sævarsson er á leið til Halmstad.
Jónas Guðni Sævarsson er á leið til Halmstad.

Jónas Guðni Sævarsson, fyrirliði KR, er að öllum líkindum á leið til sænska liðsins Halmstad sem fylgst hefur náið með honum í nokkurn tíma. Jónas segist reikna með að búið verði að ganga frá málum fyrir kvöldmat.

„Mér skilst að samkomulag ætti að nást milli KR og Halmstad í dag. Þetta lítur ágætlega út. Það er ekkert frágengið en þeir sænsku ætla að setja sig í samband við mig á eftir varðandi mín mál," sagði Jónas Guðni við Vísi.

„Þetta ætti allt saman að ganga í gegn," sagði Jónas en líklegt er að hans síðasti leikur fyrir KR, í bili að minnsta kosti, verði gegn Larissa í Grikklandi á fimmtudag. „Það eru allar líkur á því."

„Þetta er frábært tækifæri fyrir mig. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta er blóðtaka fyrir KR og það er alltaf erfiðara að fara svona á miðju tímabili. En á þessum erfiða tíma þá er gott fyrir félagið að fá smá pening og létta undir rekstrinum," sagði Jónas Guðni.

KR situr í öðru sæti Pepsi-deildarinnar, tíu stigum á eftir toppliði FH.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×