Innlent

Mannleg mistök gerð við útkall á Herðubreið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Óskað var eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar á laugardaginn. Mynd/ Valgarður.
Óskað var eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar á laugardaginn. Mynd/ Valgarður.
Mannleg mistök voru gerð við útkall þegar maður varð bráðkvaddur á Herðubreið síðastliðinn laugardag, segir í tilkynningu frá Landsstjórn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Farið var út fyrir faglega vinnuferla og misbrestur varð í samskiptum þeirra sem að komu.

Stjórn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar segir að það sé misskilningur sem haldið hafi verið fram að Landhelgisgæslan hafi neitað að senda þyrlu á svæðið. Staðan hafi verið metin og bestu leiða leitað til að leysa verkefnið með eins öruggum og skilvirkum hætti og kostur var.

„Beiðni um aðstoð þyrlu LHG í aðgerðum björgunarsveita getur komið frá lögreglu, Neyðarlínu eða í samráði við bakvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Þeir ferlar eru þrautreyndir og byggja á forræði aðila á yfirstjórn aðgerða og reynslu aðila af aðgerðum. Það er því á hæsta máta ófaglegt að leita beint til ráðherra dómsmála og blanda henni í aðgerð sem var í vinnslu," segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Þá segir í tilkynningunni að Landhelgisgæsla Íslands og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafi árum saman unnið að björgunarstörfum á landi og sjó. Á síðustu árum, með öflugri tækjakosti LHG, hafi samstarf þetta eflst til muna. Nauðsynlegt sé að björgunarsveitir og lands-og svæðisstjórnir séu í góðu samstarfi við LHG og noti þá ferla sem hafi verið búnir til í samstarfi þessara aðila. Það komi í veg fyrir misskilning af þessu tagi og tryggi fagleg viðbrögð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×