Innlent

Nýjar afurðir frá Hornafirði í tugatali

Ótrúleg gróska í matvælaþróun hefur skapað mikla stemmningu á Hornafirði. Reyktur makríll, lauksulta og rabarbarakaramella eru meðal yfir tuttugu nýrra vörutegunda sem orðið hafa til á skömmum tíma úr hráefnum héraðsins.

Humarsoð sem Jón Sölvi Ólafsson matreiðslumaður býr til úr hornfirskri humarskel er eitt dæmið en vinnustaðurinn er iðnaðareldhús sem Matarsmiðja Matís leigir frumkvöðlum. Það var opnað fyrir ári, beinlínis til að auðvelda einstaklingum og smærri fyrirtækjum að þróa nýjar afurðir. Heitreyktur áll, lúra, frostþurrkað birkilauf, - það er hægt að fylla körfu af girnilegum réttum; grænkálspestó, dilksnessulta, makrílpaté, kartöflukonfekt, allt úr héraðinu, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Guðmundur Heiðar Gunnarsson, lífefnafræðingur og fagstjóri Matís á Hornafirði, segir að með þessu sé stuðlað að því að fjölbreytt atvinnustarfsemi skapist í framtíðinni. Unnið sé úr grunngerðinni, sem eru matvæli. Þetta sé fyrst og fremst sjávarútvegs- og landbúnaðarhérað, en einnig vaxandi ferðaþjónustuhérað. Á þessum grunni vilji menn byggja og þar komi Matarsmiðjan sterk inn.

Sjómenn að reykja handfæraveiddan makríl og bændur að gera sauðaost eru meðal nærri þrjátíu aðila sem leigja eldhúsið og spara sér þar með kaup á dýrum tækjakosti. Jón Sölvi lýsir aðstöðunni sem byltingu í að þróa afurðir á markað.

Ofan á allt hefur skapast markaðsstemmning þegar vörurnar hafa verið seldar á laugardögum í pakkhúsinu á Höfn undir heitinu Matur úr ríki Vatnajökuls.

Guðmundur Heiðar segir að gott hugarfar sé á Hornafirði og það sé það fyrsta sem þurfi að laga þegar byggja þurfi upp samfélag eins og þetta. Fólk trúi því að það muni stækka og dafna með því að byggja sig upp innanfrá með því að nýta auðlindir svæðisins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×