Innlent

Breyta bensínbíl í rafbíl

Hér sjást Hjörtur Már Gestsson og Hrafn Leó Guðjónsson niðursokknir í verkefni sitt.Mynd/hrafn Leó Guðjónsson
Hér sjást Hjörtur Már Gestsson og Hrafn Leó Guðjónsson niðursokknir í verkefni sitt.Mynd/hrafn Leó Guðjónsson

Þrír nemar úr Háskólanum í Reykjavík, tveir úr rafmagnstæknifræði og einn úr véla- og orkutæknifræði hafa unnið að því hörðum höndum frá því í haust að breyta bensínknúnum bíl í rafmagnsbíl. Verkið er lokaverkefni þeirra frá skólanum og á morgun gefst fólki tækifæri til að kynna sér vinnu þeirra í Lagnakerfis­miðstöð Íslands í Kelduhverfi.

„Upphaflega var ætlunin að breyta bíl, en síðan hefur þetta í rauninni þróast út í það að við erum að smíða heilan bíl,“ segir Hrafn Leó Guðjónsson, sem vinnur að verkefninu ásamt Guðjóni Hugberg Björnssyni og Hirti Má Gestssyni. Verkið hafi reynst flókið, og þeir hafi til dæmis þurft að breyta bílnum úr framhjóladrifnum í aftur­hjóladrifinn. Fátt sé eftir af upprunalega bílnum.

Áætlað er að smíðinni verði lokið í janúar, en tilgangur verkefnisins er meðal annars að þróa mælitæki fyrir skólann sem mælir orkunotkun rafbíla á Íslandi.

Hrafn er vongóður um að verkefnið nýtist skólanum og nemendum hans vel í framtíðinni.

Verk sem þetta er nokkuð dýrt, þótt atvinnumenn á þessu sviði geti unnið það mun hraðar en nemarnir, enda var öll hönnunarvinna inni í verkinu hjá þeim auk þess sem þeir sinna öðrum verkum samhliða.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×