Erlent

Íshaldari tilgangslausasta uppfinningin

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Íshaldarinn.
Íshaldarinn. MYND/Telegraph

Rafknúinn rjómaíshaldari hlaut hin svokölluðu Landfill-verðlaun sem veitt eru í Bretlandi ár hvert fyrir tilgangslausustu uppfinninguna.

Haldarinn er rafknúinn að því leyti að hann snýr ísnum í hring og er ætlaður húðlötum ísneytendum sem nenna ekki að snúa ísnum sjálfir. Það er rithöfundurinn John Naish sem stendur fyrir Landfill-keppninni og tekur á móti tilnefningum frá almenningi. Hann skipar svo fjögurra manna dómnefnd sem hann á sjálfur sæti í en allir dómararnir eiga það sameiginlegt að láta á einhvern hátt til sín taka í umhverfismálum.

Landfill-verðlaunin eru að sögn Naish minnisvarði hönnuðarins um fáránlegt ímyndunarafl og algjörlega tilgangslausan neysluvarning. Í öðru sæti á eftir íshaldaranum rafknúna var fluglakið, lak fyrir flugvélasæti sem auk þess að verja notandann sýklum og óhreindinum úr sætinu vekur með honum notalega heimilistilfinningu.

Aðrir stólpagripir voru rafgafall sem snýst og vefur þannig upp á sig spaghettíi eða núðlum og USB-kamelljónið sem, eins og nafnið bendir til, tengist tölvu með USB-tengi. Það hreyfir augun og tunguna en skiptir hins vegar ekki um lit eins og kamelljón eru þekkt fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×